Menningararfurinn heim - alla leið heim

Áformum Landsbókasafnsins um stafrænt þjóðarbókasafn lýsti kunningi minn á þá vegu að það væri líkt og maður hefði í fyrsta sinn heyrt um Kárahnjúkavirkjun síðasta vor: Stíflan næstum fullbyggð en enginn hefði haft hugmynd um framkvæmdirnar. Landsbókasafnið hefði þegjandi og hljóðalaust byggt upp nútímalega menningarmiðlun fyrir þjóðararfinn.

Í sunndagsblaði Morgunblaðsins lýsir tilvonandi landsbókavörður, Ingibjörg Sverrisdóttir, þessum áformum fyrir alþjóð og í síðustu viku var fjallað um þau á Morgunvaktinni á Rás 1. Hún kynnti þau á morgunverðarfundi Félags íslenskra bókaútgefenda á Grand Hótel þann 9. febrúar síðastliðinn og vakti erindi hennar þar hvað mesta athygli, enda er þar að verða til stökkpallur fyrir stafrænni dreifingu á efni sem ekki er höfundarréttarvarið til alls almennings, ekki aðeins dagblaða og tímarita, heldur einnig bóka, hljóðefnis og jafnvel myndefnis. Ég mæli til dæmis eindregið með því fyrir þá sem ekki hafa farið inn á timarit.is að drífa sig þangað og blaða í tímaritum frá 19. öld, sem er hrein skemmtun. Morgunblaðið er nú tiltækt nánast í heild sinni á netinu, 365 er að skanna inn Vísi, DV, Dagblaðið og Daglaðið Vísi í samstarfi við safnið og svo var tilkynnt í síðustu viku að Amtsbókasafnið á Akureyrir ætli sér að ráðast á dagblöðin sem eftir eru: Dag, Tímann, Alþýðublaðið, Þjóðviljann. Á meðan þessu vindur fram er áfram haldið með innskönnun á eldri bókum og handritum úr handritasafni Landsbókasafns, en það á eftir að verða gríðarleg lyftistöng fræðum hérlendis að hafa handritin á vefnum. Maður sér til að mynda ítrekað hér á bloggsíðunum hvernig bloggarar nota þessa gagnabanka til að rifja upp gömul mál, tengja samtímðina við fortíðina og halda sambandi við hana, því það fennir fljótt í sporin.

Á fyrrgreindum morgunverðarfundi var fyrst og fremst verið að taka stöðuna. Tryggvi Jakobsson, útgáfustjóri Námsgagnastofnunar, brá upp mynd af því hve mikið er í boði fyrir krakka og unglinga á skólaskyldualdri á netinu af fræðsluefni sem Námsgagnastofnun býður upp á. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við HÍ lýsi því frábærlega hvernig stafræn tækni gjörbyltir rannsóknum á tungumálinum og hve mikilvægt það er að hafa stóra rafræna gagnabanka eða dæmasöfn til að ganga í. Hann tók sláandi dæmi um hve nákvæmin verður mikil þegar segja á til um hvernig nota skal orðasambönd þegar hægt er að nýta sér stór dæmasöfn.

Þeir einu sem lýstu stafrænum textum, dreifingu þeirra og miðlun, sem viðskiptatækifæri, var Ragnar Oddur Rafnsson frá Urði ehf. sem vinnur að stofnun fyrirtækisins netbok.is. Þar er stefnt að því að nota DRM tækni til að opna markað fyrir stafrænt textaefni sem er ásættanlega varið fyrir höfundarrétthafa. Fyrir höfunda dagsins í dag, sem og útgefendur, er þetta það sem í raun skiptir máli. Hvernig hægt verður að búa til dreifikerfi fyrir rafræna texta sem býr til tekjur.

Stórhuga áfrom Landsbókasafnsins geta hins vegar vel farið saman við tekjuhlutann. Ef gegnir.is verður miðstöð miðlunar menningararfsins er vel hugsanlegt að ef góð varnarlausn finnst megi leiða leitendur áfram að netbúð fyrir raftexta og/eða texta í bókarformi. Leiti maður til að mynda að bókinni Þetta eru asnar Guðjón eftir Einar Kárason, sem ekki er fáanlega á almennum markaði, þá geti maður keypt hana sem rafbók, og hugsanlega í framtíðinni fengið hana senda heim í vönduðu kiljubandi sem "print on demand" bók, eða hugsanlega sótt hana í næstu bókaverslun. Að mörgu leyti býður okkar litli markaður upp á einstakt tækifæri til að nota stór stafræn miðlunarverkefni á borð við þau sem Landsbókasafnið stendur fyrir, prenttækni, sölukanala sem eru fyrir og rafbókavörn til að gera textaheim íslenskunnar tiltækan í heild sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband