Nokkrir snjallir

Edda útgáfa flutti sig um set nú um áramótin, yfirgaf turninn á Suðurlandsbraut, afhenti hann stórkapítalinu alfarið og fór upp í gamla Tal-húsið í Síðumúla. Í tilefni af flutningunum bauð Eddan upp á fiskisúpupartí í gær og þar var saman kominn vænn skerfur af andlegum aðli þessarar þjóðar. Eins og venjulega gafst manni ekki tækifæri á að ræða við alla en maður hitti "nokkra snjalla" eins og þeir segja fyrir norðan.

Hellamaðurinn Björn Hróarsson lék á alls oddi og sagði magnaðar sögur af neðanjarðarstússi sínu. Ég fór um daginn á fund sem Hagþenkir blés til í ReykjavíkurAkademíunni og þar rakti Stefán Pálsson sagnfræðingur og hatursmaður Moggabloggsins helstu afrek í fræðaútgáfu síðasta árs. Staldraði hann þar sérstaklega við bók Björns, sem er raunar ekki bók, heldur bækur, og eiginlega ekki bækur, heldur bautasteinn, og kvað upp úr um að svona ættu fræðibækur að vera. Þarna væri lýst mögnuðum fyrirbærum, einstökum á heimsvísu, búið að uppgötva nýja sneið af Íslandi sem aldrei hefði þekkst fyrr og maður fengi allt um þetta að vita, nema bara það hvar þessir hellar allir væru! Mörgum þeirra væri vísvitandi haldið leyndum. Það var þó ekki alskostar rétt hjá Stefáni, nákvæmar GPS tölur eru afast í skrá í bókinni, en hvað um það. Það sem honum fannst mest til koma var sérviska bókarinnar. Að í inngangskafla væri skammardemba um svívirðilega framkomu Steingríms Hermannssonar við breska hellarannsakendur og erlenda vísindamenn fyrir áratugum síðan en ekki almenn fræði um tengsl hella við þjóðtrú og sögu þjóðarinnar og annað slíkt sem mönnum þykir nauðsynlegt að hafa í inngangsköflum alþýðlegra fræðirita. Eitt er einkenni þess mikla fræðara Björns Hróarssonar og þótt maður hafi aldrei leitt hugann að hraunhellum fyrr á ævinni er maður skyndilega harðákveðinn í að demba sér niður í jörðina og skoða þessi feikn eftir að hafa rabbað við hann í smá stund.

Annar snjall var Þórarinn Eldjárn. Sem sambloggarar bárum við saman bækur okkar um reynsluna af þessum miðli og skeggræddar voru sögulegar breytingar á forminu. Barst þá talið að aðsendum greinum í Morgunblaðinu, að bloggið hefði orðið einskonar framhandleggur þeirra. Þá upplýstist að Þórarinn hefði eitt sinn platað alþjóð með grein í Velvakanda og urðu margir undrandi þegar þeir heyrðu af stórkostlegri fléttu skáldsins sem hafði ekki aðeins fleygt sinni nöldurskjóðu inn um paradísarhlið Velvakanda undir fölsku nafni, heldur fengið jafnvel nákomið fjölskyldufólk til að kveina yfir kverúlansinum í blaðinu. Tilefnið hafði verið tillaga þingmanns um niðurfellingu á vörugjöldum á skauta. Brást þá herramaður nokkur illa við og sagði að það væri óráð því fátt hefði stuðlað jafn mikið af reykingum ungmenna og skautaiðkun á Tjörninni. Og ekki nóg með það, hann hafði eftir starfsmanni borgarinnar, sem var nafngreindur, að endurnar á Tjörninni væru domm eftir mikla skautadaga, þá hefðu þær verið að narta í stubbana. Niðurfelling á vörugjöldum á skauta myndi aðeins auka á þessa ósvinnu.

Þetta lyfti móralnum allmikið og átti nú hver sögu af samskiptum sínum við Velvakanda. Besta sagan af því held ég að hafi komið frá Margréti Tryggvadóttur rithöfundi og myndritstjóra sem sagði að félagi sinn sem er í leiguflugi á vegum Avion Group hafi fyrir venju að lesa upp úr Velvakanda um borð í vélunum þegar flogið er um erlendar slóðir. Full vél af fólki en enginn skilur neitt nema íslensku flugfreyjurnar og þegar "This is the captain speaking" brestur á hljóma gullkorn úr Velvakanda: "Grámann er fallegur högni og hans er sárt saknað. Ef einhver hefur orðið hans var ... Um daginn varð ég fyrir óskemmtilegri reynslu ..."

Það er flogið í 30.000 feta hæð yfir Karíbahafinu. Grámann er enn týndur í Reykjavík.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband