Ísland - best í stjórnsýslu!

Viðskiptaþingi er nú lokið. Ekki var að þessu sinni aðeins boðið upp á hefðbundna vitnisburði trúaðra eins og venjan er á vakningarsamkomum af þessu tagi, heldur raunverulegt og gáfulegt innlegg í umræðu sem skiptir máli og snýst um ímynd Íslands. Simon Anholt setti landið, þjóðina, stjórnsýsluna, ferðamennsku, útflutning og innflutning fólks auk menningarinnar á vogarskálar og niðurstaðan var án efa í ósamræmi við það sem við flest höfum haldið, og þó.

Fyrir okkur sem vinnum í menningargeiranum og raunar fyrir mig sem hef árum saman verið með puttana í útgáfu á ferðamannabókum og ljósmyndaverkum er það svolítið kyndugt að sjá hve stjórnsýsla hefur styrka stöðu í ímyndarvoginni miðað við menningu og menningararfleið þjóðarinnar. En í sjálfu sér er það ekki að undra því kynning íslenskrar menningar erlendis hefur í raun byggst upp á einkaframtaki. Þar hefur hver unnið sitt, en við höfum ekki í höndunum heildstætt menningarútrásarplan, jafnvel þótt við í raun gætum tiltölulega auðveldlega komið því á koppinn fyrir í mesta lagi 500 milljónir, sem er náttúrlega ekki neitt nú um stundir.

Bókaútgáfan hefur fyrir sitt leiti takmark sem er að Ísland verði svokallað gestaland á bókamessunni í Frankfurt árið 2011. Slík uppákoma myndi hafa gríðarlegt vægi fyrir íslenskar bókmenntir á stærsta útflutningsmarkaði sínum og vera leið að öðrum málsvæðum Evrópu, ekki síst Austur- og Mið-Evrópu þar sem mestur vöxtur og uppgangur er nú í álfunni. Um 15.000 blaðagreinar myndu birtast um Ísland í þýskumælandi prentmiðlum það árið. Hundruðir klukkustunda af ljósvakaefni yrðu tileiknaðir íslenskri menningu. Nokkrum lykilverkum yrði snarað á þýsku og 120 milljónum gert þannig kleift að hafa raunverulega innsýn í íslenska menningu í gegnum aldirnar.

Eitt af því sem hefur borið á góma og verður vonandi hægt nú þegar ný bókmenntalög verða væntanlega samþykkt á alþingi er að stórefla kynningu bókmennta erlendis. Eitt af því sem þar myndi skipta máli er að fá tvo til að vera menningarlegir sendiherrar, skipuleggja fyrirlestraferðir, standa fyrir markvissum fundum, hugsanlega í samstarfi við útrásarfyrirtæki. Um leið þurfum við að hugsa eilítið "þjóðlegar" að tengja saman listir og fyrirtæki þannig að skapandi vinna beggja varpi ljóma á þá ímynd sem íslensk fyrirtæki og íslenskir listamenn þurfa allta á einn eða annan hátt að fást við þegar þeir hasla sér völl á erlendri grund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband