"Svo stoppuðum við í sjoppunni á Hveravöllum"

Fyrir áratug fór ég Kjalveg í rútu Norðurleiðar ásamt þýskum vini. Þetta var raunar síðasta áætlunarferðin það árið, komið fram í september og orðið haustlegt á hálendinu. Þessi hálendisáætlunarleið var nokkuð skondið sambland af skemmtireisu og hefðbundinni rútuferð norður. Sjaldnast var stoppað lengi á hverjum stað, en bílstjórinn átti alstaðar kaffiafdrep. Um leið og hann kom út mettur af jólakökum og kaffi varð maður að drífa sig, sama hversu fallegt útsýnið var og sama hversu hverir, fossar og jöklar blikuðu. Meinlegastur var eftirreksturinn líklegast á Gullfossi þar sem við hlupum að fossinum og aftur til baka og rétt náðum í rútuna fyrir brottför. Óþolinmóður bílstjórinn stóð í sínum bláa búning með snjáða miðatöskuna á mjöðm og skimaði norður í átt að Bláfelli og Kerlingafjöllum eins og þaðan væri að vænta mikilla tíðinda, kannski hóf Níðhöggur sig einmitt þaðan til flugs.

Þarna uppgötvaði ég í fyrsta sinn óhjákvæmlega hnignun hálendisins. Að þess væri ekki langt að bíða að það yrði úti um ævintýrið. Kjalvegur er einkum sunnantil nokkuð seinfarinn slóði þótt hann hafi raunar stórbatnað á þessum tíu árum, en í fallegu veðri er þessi leið algerlega stórbrotin, ekki síst vegna útsýnisins til Langjökuls, Kerlingarfjalla og svo yfir heiðalöndin þegar halla tekur norður af. En perlan er náttúrlega Hveravellir. Það er sannarlega gaman að koma að Hveravöllum og það fannst greinilega fleirum. Skálavörður og veðurathuganafólk sögðu mér strax þá, árið 1996, að fólk liti á þessa leið sem sunnudagsrúnt í æ meira mæli. Það kæmi á nærbolnum með sprungið dekk og börnin með sólgleraugu og á stuttbuxum í aftursætinu og yrði alveg brjálað þegar það uppgötvaði að það var engin sjoppa þarna. Raunar var einn slíkur ferðamaður einmitt að ýta úr vör þegar við komum þarna á rútunni. Þau voru að verða nokkuð bensínlítil en höfðu fastlega gert ráð fyrir að geta keypt þarna dropa. Mér fannst þetta súrrealísk firring (og þetta var fyrir 10 árum). Að þessar stóru hálendisleiðir eins og Kjölur væru bara hver annar rúntur. Nú eru menn komnir svo langt frá efnisheiminum að þeir skynja ekki einu sinni hæðina yfir sjávarmáli, þeir ætla að bruna þarna yfir árið um kring jafnvel þótt þarna uppi sé um vetur einfaldlega annað loftslag en niður á jafnsléttu. En margt ýtir undir þessa tilfinningu og ýtti strax þá. Landsvirkjun var búin að fullganga frá mannvirkjum sínum við Blöndu. Eitt af því var að byggja upp veg meðfram stíflulóninu og þar er nú svo sem nútímalegur uppbyggður og upphækkaður vegur. Smám saman, án þess að virðist nokkurrar umræðu, hefur þessi uppbyggði vegur teygt sig lengra suður í átt að Hveravöllum, og nýir vegir hafa verið lagðir þvers og kruss í kringum lónið sem síðan hefur stækkað talsvert frá því stíflan í Blöndu var byggð. Galtará þar sem Jónas greiddi lokka elskunnar sinnar og balarnir sem lágu að henni eru til að mynda að mestu horfnir, enda étur lónið alltaf úr bökkunum vegna misgengis á hæð yfirborðsins, eins og þekkt er með uppistöðulón.

Hnignunin er því fyrir löngu hafin. Í fyrsta lagi er búið að breyta gríðarlega landslagi við Kjalveg norðanverðan. Í öðru lagi er langt síðan hugarfarsleg hnignun okkar hófst, mjög margir, alltof margir, skynja ekki hálendið annað en sem vettvang nýrra "tækifæra" og eru pirraðir yfir því að þar vantar sjoppur og bensínsölur, dekkjaverkstæði og grill. Hraðbraut yfir Kjöl væri einfaldlega harmleikur. En í raun og veru er bygging hennar rökrétt afleiðing af þeirri grundvallarafstöðu sem hinn þögli meirihluti hefur þegar tekið: að það eigi að vera sjoppa á Hveravöllum. Þegar menn fara að metast um hver komst hraðast yfir Kjöl segir sá sem var tvo tíma við hinn sem var einn og hálfan: "En, við stoppuðum náttúrlega í sjoppunni á Hveravöllum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband