Á íslenskan möguleika sem rafrænt útgáfumál?

Síðustu tvö ár hefur allt logað vegna áforma Google um að skanna inn bókakost nokkurra stórra bókasafna og bjóða netnotendum upp á að leita í bókunum eftir efnisorðum og lesa síðan sér að kostnaðarlausu stutt brot úr viðkomandi verki. Að sjálfsögðu tekur þessi innskönnun, eða stafræn endurgerð eins og þetta er lika nefnt, til verka sem eru höfundarréttarvarin.

Aðferðin sem Google beitir er sú að skanna fyrst og spyrja svo. Höfundarrétthafar eru ekki beðnir um leyfi, né gerðir við þá samningar um stafræna endurgerð og birtingu á netinu, heldur stendur fyrirtækið þannig að málum að þeir sem ráða yfir höfundarrétti hafa samband við Google og semja við fyrirtækið um leiðir til að hagnast af þjónustunni, nú eða þá banna birtingu verka sinna, eftir að þau hafa verið skönnuð inn og gerð, amk. að hluta, aðgengileg á netinu. Þetta þýðir í raun að grundvallarreglunni um hvernig staðið er að nýtingu höfundarréttar er snúið á haus. Í stað þess að útgefandi leiti til höfundarrétthafa og semji við hann um afnot af verkum hans, hyggst Google standa þannig að málum að það sé í verkahring höfundar að leita til fyrirtækisins sem þegar hefur gefið út verk höfundarins um leyfisveitingar og almenna samningagerð eftir á. Það væri óskaplega auðvelt að vera bókaútgefandi væri málum þannig háttað. Hvaða jólasveinn sem er gæti því gefið út t.d. bækur Arnaldar Indriðasonar, selt þær og svo bara séð til hvort höfundur eða upprunalegur útgefandi hans semdu við hann um réttinn til útgáfu. Allir sjá að meginhugsunin að baki útgáfu og gæslu höfundarréttar er komin hér í talsvert uppnám.

Því standa nú fyrir dyrum málaferli í Bandaríkjunum þar sem samtök bandarískra höfunda, Authors Guild, sem og hópur nokkurra stórra útgefenda kæra Google fyrir brot á höfundarréttarlögum. Eins og nærri má geta eru þetta viðamikil málaferli sem enn eru á umsagnarstigi. Á síðasta ári hættu þýskir útgefendur við málshöfðum á hendur Google þar sem grundvöllur þeirra til málshöfðunar var ekki talinn nógu sterkur. Hins vegar tapaði Google máli fyrir belgískum dómstóli þar sem blaða- og tímaritaútgefendur fengu því áorkað að sá möguleiki að Google að leita í efnisveitum blaðanna án samþykkis útgefenda var úrskurðaður ólöglegur. IPA, alþjóðasamtök útgefenda, beita sér nú fyrir því að koma á koppinn ókeypis veflausn sem gerir inngrip leitarvéla á efnisveitur blaða og bókaútgefenda gegnsærri en nú er og háða leyfisveitingu útgefenda.

Google bendir á að þeir séu ekki að gefa út bækurnar, heldur aðeins að birta lítið brot úr bókunum og að þetta brot tengist efnisleit eftir stikkorðum. Vilji menn lesa allan textann verði þeir að kaupa verkið og Google bjóði upp á þá þjónustu að leiða menn áfram uns þeim áfanga er náð. Margir sem velta þessum málum fyrir sér eru á því að þessi leið sé rétt og góð. Allir hagnist. Neytendur kynnist margskonar verkum og margskonar upplýsingum sem þeir annars hefðu aldrei haft veður af. Google skaði engan með því að búa til nýjar leiðarlýsingar fyrir Gutenberg-stjarnkerfið eins og McLuhan kallaði upplýsingakerfi Bókarinnar, þessa ótrúlegu og mögnuðu veröld sem hefur verið að hlaðast upp og vaxa síðan um 1470.

Aðrir, fyrst og fremt Evrópubúar, en einkum þó Frakkar, eru hins vegar á því að þetta snúist ekki aðeins um útópíu upplýsingaflæðis, að allir, frá Ulaan Bator til Úlfdala, geti nálgast heimsbókasafnið á netinu og síðan bara pantað bækurnar sem þeim líkar á hjá Amazon. Frakkar og raunar fleiri stórar Evrópuþjóðir, sjá í Google-væðingunni skýrt dæmi um að frá sjónarhóli Google, Amazon, Sony og annara slíkra fyrirtækja sé texti það sama og enskur texti. Önnur tungumál séu í raun ekki inn í myndinni, jafnvel þótt fjöldi texta á öðrum tungumálum en ensku verði skannaður inn, því Google hefur gert samninga við bókasöfn háskóla á borð við Harvard, Stanford, Columbia og Oxford. Frakkar hafa hleypt af stokkunum innskönnunarverkefni á vegum franska þjóðarbókasafnsins sem ætlað er að veita aðgang að frönskum textum. Hvernig það módel verður útfært í viðskiptalegum tilgangi er hins vegar óljóst, markmiðið er fyrst og fremst menningarpólitískt: Að Frakkar séu ekki komnir upp á Google um aðgang að frönskum textum á netinu.

Google Book Search heldur hins vegar áfram á fullu spani. Nú 18. janúar var haldin viðskiptaráðstefna í New York þar sem Google boðaði fulltrúa um 400 útgefenda af enska málsvæðinu á sinn fund til að kynna þeim fyrirætlanir sínar. Google lítur svo á að samningar við nokkra stærstu útgefendur Bandaríkjanna og Bretlands náist brátt og þá verði hægt að skoða og lesa heila texta á Google Book Search. Þetta verði þó aðeins hægt gegn gjaldi en um leið verði líka hægt að hala textana niður á þau tæki sem í boði eru til þess arna. Google ætlar sér með öðrum orðum að verða iTunes búð alheimsins. Þar verði textar til sölu og sú sala færi höfundum og útgefendum tekjur, að því tilskyldu að góð vörn finnist eða DRM tæknin (Digital Rights Management) sé ásættanleg.

Nú er það raunar svo að markaður fyrir rafrænar bækur er agnarsmár. Samtök bandarískra útgefenda, AAP, létu gera könnun á heildarhlutdeild sölu á öllum rafrænum bókum, efnisveituáskrift að uppsláttarverkum og handbókum meðtalin. Árið 2005 nam salan 0,5% af heildarveltu bandaríska bókabransans, eða sem samsvaraði 12 milljónum dala. Allur bransinn halaði inn 25 milljarða. Allir fjölmiðlaspegúlantar eru sammála um að enn hafi enginn markaður í líkingu við iPod markaðinn opnast fyrir rafræna texta. Neytendur sækist að vísu eftir uppsláttarverkum, upplýsingaveitum og handbókum á rafrænu formi og að líkindum muni kennslubókaútgáfa og handbókaútgáfa færast í æ meira mæli í rafrænt horf, en enn sem komið er fari fólk ekki upp í rúm á kvöldin með kjöltutölvuna eða Sony Readerinn sinn og lesi skáldsögu af skjá. Sumir segja að það verði hreinlega aldrei. Þarna eigi hinn stafræni heimur einfaldlega ekki við.

En á meðan öllu þessu vindur fram heldur Google áfram að veðja á stafræna framtíð bóklesturs og upplýsingageymslu. En það gera svo sem líka flestar þjóðarbókhlöður Evrópu, þar með talin sú íslenska. Stafræn endurgerð prentaðra texta er alls staðar á dagskrá. Sem leiðir hugann að því hvernig staða lítilla þjóðtungna verður í þessu rafræna umhverfi sem er að svo miklu leyti stjórnað af enskumælandi hagsmunum. Til að mynda er vita vonlaust fyrir Íslendinga að sjá rafræna gerð sinna helstu bókgersema í Sony Readernum. Aðeins er hægt að kaupa þar bækur á ensku og það er aðeins hægt að kaupa þær fyrir Bandaríkjamarkað. Öll sala fer í gegnum eina veitu sem rekin er af Sony, Connect, og notað sama módel hjá iTunes búðinni. Þetta sama gildir raunar einnig um hljóðbækur. Jafnvel þótt svo ólíklega vildi til að stærstu eigendur hljóðefnis á Íslandi, RÚV og Blindrabókasafnið, tækju höndum saman við einhvern um að búa nú öllum þessum gersemum og góðmeti stað á netinu þar sem hægt væri að hlusta á Halldór Laxness lesa Brekkukotsannál, Ingvar E. Sigurðsson lesa Mýrina osfrv. þá yrði aldrei hægt að koma þessu efni að á iTunes eða audiobooks.com, þetta væri of lítið snitti til þess eða þá að ekki mætti veita markaðsaðgang hérlendis. Jafnvel þótt Sykurmolarnir fáist á iTunes er Halldór Kiljan ekki sama hittið gagnvart íslenskuómæltum heimi.

Ef þessi mál verða ekki tekin föstum tökum á næstu misserum og kraftar hér samstilltir getum við vaknað upp við það vonda draum að bókmenning okkar - sem er sú menningargrein okkar sem á sér fortakslaust ríkulegasta og lengsta hefðina - verður utanveltu í stafrænum nútímaheimi. Hér ríður á að finna lausnir til að tryggja textunum stað þar sem möguleikar íslenskumælandi fólks til að nálgast þá og nýta eru gagnsæir, auðveldir og í samræmi við það sem gerist og gengur í miðlun upplýsinga á heimsvísu. Til þess að svo geti orðið þarf í senn að finna tæknilegar og efnahagslegar lausnir.

Félag íslenskra bókaútgefenda hyggst á komandi mánuðum tengja saman sem flesta sem vinna við þessi mál hérlendis í því skyni að skýra stefnuna og vekja alla sem koma að útgáfu, skriftum, bóksölu, varðveislu, rannsóknum og kennslu til umhugsunar um möguleika og vandkvæði rafrænnar útgáfu og dreifingu höfundarréttarvarins efnis í stafrænu formi. Markmiðið er að íslenskan verði tæk sem stafrænt útgáfumál, rétt eins og henni tókst að verða prentmáli einum 60 árum eða svo eftir uppfinningu prentverksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband