Vopnabúrið í stofunni

Fyrir óinnvígðan og óflokkskólagenginn er það eins og að skoða líf orma undir grastorfu að fylgjast með deilum Jóns Ólafssonar við Þór Whitehead, að ekki sé minnst á hina deiluna um síldveiðiflota Sovétmanna. Þetta er manni undarlega órafjarlægt, en svo sem áhugavert, þannig séð.

Nýjustu hreyfingar mátti sjá í langri grein Þórs í Lesbók helgarinnar og raunar var mér bent á að Björn Bjarnason hefði minnst á það á heimasíðu sinni að undarlegt hefði verið að sjá annars vegar grein Þórs og hins vegar grein Maríu Kristjánsdóttur, sem hann kallaði "erkikomma", um ferð hennar til Venesúela, hlið við hlið, og fannst Þröstur ritstjóri hafa dregið um of taum Maríu. Ekki veit ég það, en eitt er víst að Hugo Chavez er mikið undur af manni og ég hef fengið að heyra nokkuð skrautlegar lýsingar á honum og hans framkomu hjá vini mínum og kærustu hans sem er alin upp í Venesúela. Þær lýsingar sem og fréttaflutningur af fyrirhugaðri þjóðnýtingu, hernaðaruppbyggingu, sem og "21. aldar sósíalismanum" (sem ég hélt að Blair hefði fundið upp) valda því að þetta er allt saman ákaflega forvitnilegt. Mun forvitnilegra raunar fyrir venjulegt fólk en deilan endalausa um vopnaeign kommúnista á millistríðsárunum. Grein Maríu, svo því sé haldið til haga, svalaði raunar ekki þeirri forvitni.

En deilan um baráttusveitir kommúnista og þarf af leiðandi þörfina á sterkum innri vörnum, þyrfti nauðsynlega að fara að komast á nýtt stig. Þótt við, sem fædd erum eftir 1960, "getum aldrei sett okkur inn í tilfinningar kalda stríðsins" eins og marghamrað hefur verið á, og tengjumst jafnvel hvorki kommúnistum né hvítliðum þess tíma fjölskylduböndum, þá er það svo að sum okkar hafa áhuga á að skoða sögu 20. aldar í ljósi ákveðinnar yfirvegunar þar sem hefðbundnir flokkadrættir þess tíma eru ekki á dagskrá. Slíka yfirvegun má raunar sjá í frábærum bókum Þórs um seinni heimsstyrjöld: Ófriður í aðsigi (AB 1980), Íslandsævintýri Himmlers 1935-1937 (AB 1988), Milli vonar og ótta (Vaka-Helgafell 1993) og Bretarnir koma (Vaka-Helgafell (1999). Þór tókst með eindæmum að skrifa þannig að atburðarásin varð æsispennandi, þrátt fyrir lýsa mjög stuttum tíma í sögunni. Hann lýsti gerendum með lifandi hætti, naskur á smátriði sem fengu persónur til að lifna á sviðinu. Raunar er það svo að lýsingar til dæmis á Hermanni Jónassyni í þessum bókum beinlínis skilgreina þann mann fyrir mér enn í dag og oft þegar ég geng eftir Túngötunni sé ég fyrir mér lýsingar Þórs á töku Gerlachs og fjölskyldu í þýska sendiráðinu.

Mér finnst því miður þessi deila við Jón Ólafsson (ég játa raunar að hafa ekki lesið Kæru félagar, en bókin glottir til mín úr bókaskápnum) ekki draga þessa hæfileika fram. Mjög líklega voru til baráttusveitir og það vopnaðar, en það sér hver maður í hendi sér að á bak við þátttöku í þeim lágu ekki bara einhverjar annarlegar kenndir. Reynsla af fátækt, réttindaleysi og slæmum aðbúnaði og aðstæðum alþýðufólks var grunnþráður í pólitískri vakningu þeirra sem tóku þátt í pólitísku starfi kommúnista og raunar einnig jafnaðarmanna, þær mörgu ævisögur alþýðumanna sem út hafa komið sýna þetta morgunljóst. Það þýddi náttúrlega ekki heldur að tæki maður þátt í pólitísku starfi kæmi maður kæmi sér upp vopnabúri í stofunni.

Ástæðan fyrir þessum hugleiðingum er raunar kvikmynd sem ég sá um helgina: The Wind That Shakes The Barley og hlaut Gullpálmann í Cannes í vor. Þetta er rammpólitísk mynd sem fjallar um afleiðingarnar af borgarastríðinu á Írlandi og stofnun írska fríríkisins á þriðja áratug 20. aldar. Umræður um eignaupptöku, lýðræðisþátttöku, borgaralega uppreisn, vopnaða baráttu og réttlætisspursmál eru í fókus allan tímann og kristallast í örlögum bræðra sem lenda sitt hvorum megin við víglínur stjórnmálanna uns þeir verða að takast á í vopnuðum átökum. Í henni er ekkert hvítt eða svart. Ekkert afdráttarlaust hægri eða vinstri. Við þurfum meira af slíku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband