Klámfengið og dapurlegt

Tugþúsundir Íslendinga hafa á síðastliðnum dögum horft á upptöku af rekkjubrögðum þjóðþekkts manns. Ég veit að margir þeirra veltu því fyrir sér eftir að hafa beðið óratíma eftir að myndskeiðið halaðist niður og síðan setið við tölvuna og horft á aðfarirnar hvað í ósköpunum þeir voru eiginlega að gera. Af hverju var maður að horfa á þessa sorglegu sýningu sem skyndilega er rædd í jafnt fréttatímum sem þingsölum? Hvað er þetta eiginlega?

Það merkilega er að nöfnin sem við notum yfir þetta svið mannlífsins eru flest ættuð úr bókmenntum. Raunar eru bókmenntirnar án efa það svið þar sem tilfinningar áhorfenda og gerenda gagnvart snúnum rangölum kynlífs og valds hafa helst verið kannaðar. Þeir mörgu sem stóðu óvænt frammi fyrir óþekktum hliðum sjálfs sín og vissu ekki hvort þær sneru upp eða niður gætu því nú tekið sér nokkrar þessara bóka í hönd og glöggvað sig á þeim.

Því miður hefur helstu grunnritum á þessum vettvangi ekki verið snarað yfir á íslensku. Það er til að mynda ekki til snifsi eftir de Sade markgreifa (raunar er hægt að hala honum niður á frönsku og ensku, hann er jú dottinn úr rétti) og því síður litteratúr á borð við Sagan af O eða Pelsklædda ástargyðjan eftir Sacher-Masoch (sem einnig er komin til ára sinna, 19. aldar rit). Reyndar er það svo með þennan nafngjafa masókismans að vegur hans hefur vaxið mjög á síðustu árum og hann er raunar orðin einskonar menningarstofnun í borginni Graz í Austurríki, þar sem hann bjó lengstum. Þegar Graz var menningarhöfuðborg Evrópu árið 2003 var ýmislegt gert til að halda nafni hans á lofti, þar má meðal var bökuð kaka sem hét því frumlega nafni Sacher-Masoch og er eins og nafnið bendir til afbrigði af Sacher-tertunni frægu. "Má bjóða herranum meira af masókistatertu?" Það eina sem hins vegar hefur verið þýtt af viti er Saga augans eftir Georges Bataille (þýðandi: Björn Þorsteinsson) og vegna þess að hún er stutt og þægileg aflestrar er gott að byrja á henni sem grunnriti í klámfræðum fyrir lengra komna.

Sagan er ákaflega einföld. Nokkrir franskir unglingar - forríkir og siðspilltir - leiða saman hesta sína í orgíum sem storka foreldravaldi og siðum samfélags og trúarstofnana. Þetta byrjar sakleysislega en brátt stika sögumaður og vinkona hans Simone út úr öllum borgaralegum kortum og halda út á ónumdar erótískar lendur. Klám, geðveiki, ritúalísk kynferðismorð, ofbeldi, valdníðsla og vessaböð ganga í samband við innblásnar og ljóðrænar lýsingar á fegurð dáinna skepna, greddukrampaköstum og ógnarafli náttúrunnar. Bataille var sjaldnast að skafa af hlutunum í ritum sínum þar sem nálægð dauða og sköpunar er síendurtekið stef. Hin djúpa nautn af sundrun, ofbeldi og eyðileggingu rís á aðra hönd, en unaðurinn - sem aldrei er saklaus og rómantískur - á hina. Allt er þetta klætt í fremur klisjulegan nýgotneskan búning þar sem geðveikrahæli í þrumveðri, siðspilltir enskir aðalsmenn og dráp á katólskum prestum eru traustir póstar.

En að baki er traust meginafstaða sem felst í því að klám sé ekki bara borgaraleg afþreying miðaldra fólks í lífskreppu, heldur einkonar veruháttur eða leið að djúpum veruleikans. Klámið er afhjúpun á stærstu borgaralegu blekkingunni: Að heiðarleikinn ráði ríkjum í veruleikanum og þar með í kynlífinu. Fræg er ræða sögumannsins um þetta mál:

Í augum annarra er heimurinn heiðarlegur. Heiðarlegu fólki virðist hann heiðarlegur vegna þess að augu þess eru geld. Þess vegna vekur klám því ugg. Það finnur ekki til minnstu angistar þegar það heyrir hana gala eða þegar það horfir upp í stjörnubjartan himininn. Þetta fólk nýtur aðeins "lystisemda holdsins" að því tilskildu að þær séu bragðdaufar. En upp frá þessari stundu var það hafið yfir allan vafa að ég hafði engan áhuga á því sem kallað er "lystisemdir holdsins", einmitt vegna þess að þær eru bragðdaufar. Ég kaus heldur það sem menn telja "saurugt".

Þessi þekking er að sjálfsögðu dýru verði keypt. Miðpunktur þekkingaröflunarinnar er hin tryllta Simone, sem er aflvaki hinnar erótísku kraftabylgju sem hríslast gegnum textann. Að sjálfsögðu eyðist hún í þessum átökum, kastar smám saman mennskum ham sínum og líkst æ meira dýri, enda verða kynferðisathafnir hennar smám saman að einkonar vúdú-ritúölum. Henni hverfur veröldin og það sem í henni er - fegurð hennar myndum við kannski segja. Það er svo komið fyrir henni að fátt heillar. Kannski þekkjum við okkur sjálf þar aftur?

Helst opnaði Simone þreytuleg augu sín þegar eitthvað klámfengið og dapurlegt átti sér stað.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband