Rafrænn pappír á leiðinni

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem fylgst hefur með bókaútgáfu á síðustu árum að ýmiss konar tækninýjungar knýja nú á dyr hefðbundinnar útgáfu, prentunar og framleiðslu bóka. Margskonar tæki hafa komið fram á síðustu 10 árum sem hugsuð hafa verið sem rafræn lestrartól en ekkert þeirra hefur náð fótfestu. Sala rafrænna texta hefur því ekki vaxið nándarnærri eins hratt og haldið var fyrir áratug síðan, en það er ljóst af tíðum fréttum úr herbúðum rafeindafyrirtækja að brátt verða útgáfufyrirtæki að bjóða upp á rafrænar vörur í miklu úrvali.

Sony Reader kom á markað vestanhafs og í Japan á síðasta ári. Það er samdóma álit að þar sé á ferð besta tækið til þessa. Skjárinn er af nýrri kynslóð rafræns pappírs sem lesa má jafnt í dagsbirtu sem myrkri. Rafhleðslan er þannig gerð að tækið eyðir einungis straumi við flettingar, þess vegna er afkastageta þess mæld í flettingum, og það má hlaða allmiklu textamagni inn á það, eða sem samsvarar hundruðum hefðbundinna textatitla. Gagnrýnendur eru hins vegar á þeirri skoðun að gagnvirkir notkunarmöguleikar séu alltof takmarkaðir til þess að tækið nái verulegri fótfestu. Þessi skoðun endurspeglar vel væntingar neytenda til slíkra tækja. Einfaldur lestur er í raun ekki það sem við höfum vanist af lestrartækjum, heldur viljum við "vinna með textana". Fræðikenningar millitextafræðinga síðustu áratuga virðast einfaldlega vera réttar. Um leið og við hættum að skynja texta sem lokaða einingu á milli bókarspjalda missum við "virðinguna" fyrir þeim. Þeir breytast í gangvirka upplýsingaveitu sem á að vera okkur til framdráttar við "vinnu" okkar. Þeir "framleiða aðra texta" og framleiða um leið okkur sjálf, sem er í anda þeirrar menntunarhugsunar sem er efst á baugi í upphafi þessarar aldar og gengur út á samþættingu sköpunar og rannsókna við framleiðslukerfi markaðssamfélagsins. Það er í senn heillandi og óhugnanlegt að sjá fram á þetta, ekki síst vegna þeirrar tilhneigingar allra sem umgangast rafræna texta að líta svo á að enginn eigi að fá greitt fyrir að hafa búið þá til.

Nú berast fréttir af því að þessar spírur sem vitað hefur verið af undanfarin ár, til dæmis hugmyndin um rafpappír sem ekki er studdur af tæki, en getur einn og óstuddur birt lesmál, eru að vaxa og verða að alvöru iðnframleiðslu. Þann 3. janúar tilkynnti fyrirtækið Plastic Logic að það hyggist byggja fyrstu rafpappírsverksmiðju sína í Dresden. Fyrirtækið er dæmigert þekkingarþorpsfyrirtæki, sprottið úr samþættingu háskólarannsókna og praktískra lausna, stofnað í Cambridge árið 2000 af fólki sem vann við Cavendish-rannsóknarstöðina í eðlisfræði. Þar á bæ þróuðu menn þunn blöð, jafn þunn og meðfærileg sem alvöru gamaldags pappír, sem tengd eru við rafhlaðna smágræju og getur geymt þúsundir og milljónir blaðsíðna. Plastic Logic mun ekki framleiða fyrir neytendamarkað, en verða birgir fyrir stóra iðnframleiðendur sem geta notað rafpappírinn í vörur sínar, t.d. Sony, en einnig mun Amazon vera áhugasamt um málið.

Með stórvirkri fjöldaframleiðslu á rafpappír mun kostnaðurinn við rafræn lestrartæki snarlækka á næstu árum og fyrir vikið auka á þörfina á að hafa rafbækur á boðstólum. Fyrirtækið hefur aflað yfir 100 milljóna bandaríkjadala í hlutafé og er í eign fyrirtækja á borð við Intel, BASF og Bank of America. Þetta er því ekkert grín. Saxland og höfuðborgin Dresden hafa á undanförnum árum þróast yfir í að verða öflug miðstöð fyrir hátækniðnað, enda rík hefð fyrir fíniðnað á þeim slóðum og þar var hjarta iðnframleiðslu gamla A-Þýskalands. Gott skattaumhverfi og sterkur þekkingariðnaður hafa skapað það sem kallað er í gamni "sílikon-Saxland" í þýskum fjölmiðlum. Áætluð framleiðslugeta verksmiðjunnar er 1 milljón stykki rafskjáa á ári. Framleiðsla hefst árið 2008. Plastic Logic gerir ráð fyrir að 40 milljón einingar af rafpappírsskjám verði í umferð árið 2010.

Það eru þrjú ár þangað til.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband