Íslenskar bókmenntir í alþjóðlegu samhengi

Í Fréttablaðinu sunnudaginn 4. janúar var frétt um þann mikla fjölda réttindasölusamninga íslenskra bóka sem gerðir voru á síðasta ári. Þessar tölur eru í samræmi við þann stöðuga stíganda sem hefur verið í sölu útgáfu- og þýðingaréttinda íslenskra bóka á unanförnum árum. Í kjölfarið hafa einnig verið gerðir samningar um ýmis afleidd réttindi, svo sem hljóðbókaútgáfur, rafbókaútgáfur, kvikmyndaréttindi og sérútgáfur ýmiss konar.

Margir sjá miklum ofsjónum yfir þeim miklu fjármunum sem komi í kassann vegna þessara samninga. Ég hef oft sagt þá sögu að einn af bryndrekum útrásarinnar átti ekki orð af hneykslun yfir þeim upphæðum sem til umræðu eru þegar hann innti okkur hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda eftir þeim fyrir nokkrum árum. Nú er landslagið náttúrlega breytt, hver evra eða dollari skiptir allt í einu máli og enginn þykist lengur geta sett sig á svo háan hest að hneykslast á því hve tugir milljóna eru mikil smámynt. Staðreyndin er að íslenskt höfundasamfélag munar um þessa innkomu, einfaldlega vegna þess að tekjumöguleikar á heimavelli eru og verða alltaf takmarkaðir, jafnvel liðið góðæri breytti ekki miklu um tekjumynstur eða afkomu íslenskra rithöfunda, öfugt til dæmis við myndlistarmenn. Það er líka staðreynd að flestir ábatasömustu samningarnir eru til komnir vegna sölu á þýðingar- eða útgáfuréttindum íslenskra sakamálasagna. Sakamálasögur Íslendinga eru verðmætasta varan á alþjóðlegum réttindamarkaði og hafa verið það nánast alla þessa öld. Það sama gildir um önnur Norðurlönd.

Stærsti ávinningurinn og sá sem meira skiptir til langframa er þó ekki bundinn upphæðunum sem um ræðir. Hann er að íslensk bókmenning, íslenskar sögur, eru hluti af alþjóðlegum bókmenntamarkaði. Því miður hefur aldrei verið unnin nógu djúp rannsókn á því hvaða áhrif það hefur til að mynda haft á ímynd Íslands að milljónir eintaka íslenskra bóka í þýðingum eru þessi árin í umferð á meginlandi Evrópu, einkum á þýska málsvæðinu. Við vitum því í raun mest lítið um mikilvægi þess fyrir sértæk áhugamál okkar hér heima, svo sem "hver við erum", "ímynd Íslands" og annað sem við veltum fyrir okkur af meiri þunga nú en oft áður þegar landið hefur svo mánuðum skiptir verið útsett fyrir flóði greina og frétta sem allar fjalla á neikvæðan hátt um skipbrot íslensks fjármálakerfis og að stjórnvöldum og stofnunum mistókst að takast á við hrunið með röggsemi og festu.

Fjöldi réttindasamninga undirstrikar einnig að íslenska bókabransanum hefur auðnast að byggja upp þekkingu og hæfni til að flytja út íslensk hugverk. Slíkt er á engan hátt sjálfgefið og útheimtir langtímahugsun, úthald og elju. Þetta starf hefur verið unnið fyrst og fremst af einkafyrirtækjum, eintstaklingum með áhuga og eldmóð, sem lærðu af gagnvirki réttindasölu eins og hún hefur farið fram í hinum "siðaða" heimi síðan á 19. öld. Þessi lögfræðilegi og viðskiptalegi grundvöllur bókmenntaútbreiðslu er alltof oft hafður líkt og í sviga, rætt er um þýðingar og samskipti bókmenntakerfa eins og það séu fyrst og fremst ákvarðanir þýðenda sem ráði því hverju sinni hvernig slíkt fer fram. Það gleymist alltof oft að miðlun bókmennta hefst sem viðskiptasamningur og byggir á markaðsvinnu og sölustarfi.

Það er gríðarlega margt ógert í vinnunni við að útbreiða íslenska bókmenningu. Enn er enginn formlegur samstarfsgrundvöllur milli utanríkisráðuneytis, bókmenntasjóðs og réttindasölufólks forlaganna sem og útflutningsráðs. Stofnun og styrking bókmenntasjóðs árið 2007 var stórt skref framávið til að búa til grundvöll að útfluningsstoð fyrir íslenska bókmenningu en ekki síst sú ákvörðun stjórnvalda að sækja um að Ísland verði heiðursgestur bókamessunnar í Frankfurt 2011. Það er nú ljóst að þrátt fyrir að kreppi að um þessar mundir verður ekki hætt við það verkefni, enda sjálfsagt fátt heimskulegra í vitrænni uppbyggingu þjóðarímyndar sem stendur á raunverulegum grunni en ekki óskhyggju. Á þeim vettvangi mun verða til mikil reynsla, sambönd og starfsemi sem mun nýtast til framtíðar. Þegar eru risaverkefni komin af stað á borð við nýja þýðingu Íslendinga sagna á þýsku og framundan er mikið kynningarstarf á íslenskum höfundum og íslenskri bókmenningu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband