Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Síðustu gusurnar

Það er farið að sjatna eftir bókaflóðið og síðustu skvettunum skilar nú á land. Menn rölta upp á næsta hól og skyggnast yfir útgáfuárið og búið er að veita Íslensku bókmenntaverðlaunin. Það var falleg athöfn í arfavitlausum útsynningi á Bessastöðum, svo stofan varð hlýlegri og vinalegri fyrir vikið, meginröksemd þess að vetrum á Íslandi er vel varið inni með bók opinberaðist manni í allri sinni dýrð. Svo hefur forseti Íslands sérstakt lag á því að horfa björtum augum á samtímann og tókst að lýsa landslagi bókaútgáfunnar þannig að það virtist baðað áður óþekktum ljóma okkar glæstu anda. Hann hafði líka rétt fyrir sér. Aldrei áður í sögu þjóðarinnar starfa jafn margir að fræða- og ritstörfum og nú.

En bókaflóðinu lýkur ekki aðeins með skálaræðum og húrrahrópum. Nú er liðinn opinber skilafrestur bóksala á jólabókum til útgefenda. Menn sjá því þessa dagana svart á hvítu hvað þeir seldu í raun og veru. Þetta getur verið erfiður tími. Óforvarindis dúkkar upp heill bókalager sem legið hefur undir bekk einhvers staðar í afskekktri búð í Samkaupa-samstæðunni. Einhver verslunarstjóri pantaði óvart 150 eintök í staðinn fyrir 50 eintök. Þetta kemur allt í hausinn á útgefandanum aftur og er oftast tapað fé. Þótt enn geymi útgefendur hérlendis bækur lengur en margur gerir í nágrannalöndum eru takmörk fyrir því hvað mörghundruð bóka lager af óseljanlegum innbundnum bókum getur beðið lengi eftir sínum tíma.

Almennt hafa þeir sem stungið hafa niður penna til að meta stöðu og horfur verið nokkuð jákvæðir. Það gildir til dæmis um rithöfundana sem ræða um heima og geima í Fréttablaðinu hvern sunnudag undir því yfirskini að þeir séu að ræða "stöðu íslensku skáldsögunnar", en því miður hafa þau annars skemmtilegu viðtöl ekki bætt miklu við þekkingu mans á henni. Því viðtölin eru nefnilega skemmtileg, Hermann Stefánsson og Steinunn Sigurðardóttir og nú síðast Guðrún Eva Mínervudóttir, eru kát og hress og fara um víðan völl. Eini rithöfundurinn sem setti upp eiginlegt prógramm og var með harðar skoðanir var Jón Atli Jónasson í fyrsta viðtalinu. Svona eftir á að hyggja komst hann líklegast næst því að ræða stöðu skáldsögunnar, hinir eru meira að spá almennt í ritun og útgáfu og sér sjálfum, hver með sínu nefi. Mest á óvart kom mér framlag Hermanns Stefánssonar sem var svo jákvæður að manni hnykkti við. En greinilega er glæpasagan orðinn svo fyrirferðarmikill póstur í íslensku bókmenntalífi að ekki er hægt að ræða skáldsagnaritun án þess að tala ýmist vel eða illa um hana. Svolítið spes miðað við samskonar umræðu í öðrum löndum, en hvað um það.

Eina gagnrýna röddin á skipan mála heyrðist í Lesbók Morgunblaðsins á laugardag. Ari Trausti Guðmundsson, hinn frjói múltítalentmaður, ritaði renning um bókamarkaðinn og bókaflóðið. Ari hefur áður ritað í blöð á svipuðum nótum og býr að því að hafa margháttaða reynslu af markaðinum. Sumt í ábendingum Ara er þó þess eðlis að til að ráða úr því þyrfti að taka upp einhvers konar miðstýrt apparat í útgáfu-, markaðs,- og kynningarmálum, sem er einfaldlega ólöglegt. Hann er líka einn þeirra sem ég held að myndi vilja skilyrða frjálst bókaverð, enda líklegast eina lausnin í bráð á því að stoppa afsláttarskriðuna. Í Danmörku gerðu bókaútgefendur og samkeppnisyfirvöld á síðasta ári með sér samkomulag um fast bókaverð í ákv. tíma eftir útkomu ákveðins fjólda útgáfubóka hvers forlags. Það þýðir í raun að Dan Brown, Harry Potter og fleiri slíkir góðir eru með föstum verðum á á útgáfuárinu og fyrstu mánuði næsta árs á eftir en ekki Peder Pedersen og nýja prósaljóðabókin hans, öllum er sama um að hún sé seld með 40% afslætti. En hver mun geta stjórnað því hve margar bækur koma út í nóvember og desember? Enginn. Það er fráleitt að láta sér detta það í hug. Enginn nema bara markaðurinn getur sagt útgefendum hvenær þeir eigi að gefa út bækur sinar. Því þótt maður geti sagt sér það sjálfur að það sé vitleysa að gefa t.d. út fræðibók um afmarkað svið eða ljóðabók í nóvember og ætlast til að þær fái góða kynningu í fjölmiðlum er þetta gert samt. Og það sem meira er, aftur og aftur. Ég býst við að það þyrfti fleiri til en ATG til að benda á hve undarlegt háttalag þetta er á stundum.

Ari Trausti er líka með mjög réttmæta ábendingu - sem ég held að komi almenningi þó ekki mikið við - en það er það furðulega lag sem er á samskiptum heildsala og smásala og lýtur að skilarétti bókabúða. Þar gilda sömu lög og reglur og ef um staðgreiðsluviðskipti væri að ræða, en hins vegar hefur smásalinn ákaflega rúmar heimildir til að skila vörunum aftur ef þær seljast ekki, nema náttúrlega um annað sé samið. Þetta veldur fólki höfuðverk því sölutíminn f. jólin er svo stuttur. Þær bækur sem seljast á lengri tíma og koma út fyrr á árinu, bækur eins og til dæmis metsölubókin Íslensk fjöll eftir Ara og Pétur Þorleifsson, eru undanþegnar þessu vandamáli þar sem dreifing vörunnar er nær eftirspurn. Ég er innilega sammála ATG um að menn hafi enn of lítið látið reyna á möguleika þess að selja bækur utan jólamarkaðarins, en til þess að það sé hægt verða menn líka að kyngja því að þetta er markaður og þar þarf að kynna vörurnar með almennatengslum, auglýsingum og framstillingum hjá smásölum.


Íslensku bókmenntaverðlaunin

Íslensku bókmenntaverðlaunin verða afhent á Bessastöðum klukkan fjögur síðdegis í dag. Forseti Íslands, Herra Ólafur Ragnar Grímsson, afhendir verðlaunin. Nú er bara að bíða og sjá hver hreppir hnossið.

Til gamans er hér listi yfir verðlaunahafa frá upphafi:

Stefán Hörður Grímsson 1989, Fríða Á. Sigurðardóttir og Hörður Ágústsson 1990, Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson 1991, Þorsteinn frá Hamri og sameiginlega Vésteinn Ólason, Guðrún Nordal og Sverrir Tómasson 1992, Hannes Pétursson og Jón G. Friðjónsson 1993, Silja Aðalsteinsdóttir og Vigdís Grímsdóttir 1994, Steinunn Sigurðardóttir og Þór Whitehead 1995, Böðvar Guðmundsson og Þorsteinn Gylfason 1996, Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson 1997, Hörður Ágústsson og Thor Vilhjálmsson 1998, Andri Snær Magnason og Páll Valsson 1999, Gyrðir Elíasson og Guðmundur Páll Ólafsson 2000, Hallgrímur Helgason og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir 2001,  Ingibjörg Haraldsdóttir, Pétur M. Jónasson og Páll Hersteinsson 2002, Ólafur Gunnarsson og Guðjón Friðriksson árið 2003, Auður Jónsdóttir og Halldór Guðmundsson árið 2004 og Jón Kalman Stefánsson og Kristín G. Guðnadóttir, Gylfi Gíslason, Arthur C. Danto, Matthías Jóhannessen, Silja Aðalsteinsdóttir og Eiríkur Þorláksson árið 2005.

Bókaárið gert upp

Í gærkvöldi hlýddi ég ásamt fleiri áhugamönnum um samtímabókmenntir og bókaútgáfu á erindi Þorgerðar E. Sigurðardóttur um bókaárið 2006 í húsi Sögufélagsins við Fischersund. Félag íslenskra fræða hefur haft þann háttinn á lengi að standa fyrir þessum samkomum, sjálfur flutti ég svona tölu um bókaárið 1993 sem var nú raunar ekki beysin.

Þorgerður tók allt annan pól í hæðina en framsögumenn undanfarinna ára. Fremur en að draga upp bókmenntasögulegt samhengi verka og sjá þemu og viðfangsefni bókanna í samhengi miðaði hún mál sitt við viðtökur og sagði þar til sín reynsla hennar af bóksölu. Hún hafði lista Pennans yfir mest seldu bækur samstæðunnar árið 2006 til hliðsjónar og það var skemmtilega hressandi og nýstárlegt. Smásögur úr bóksölunni sem hún sagði voru frábærar. Til dæmis þegar einn kúnninn hélt því fram að til væri bókin Hryggðarfantur eftir Auði Jónsdóttur og varð móðgaður og fúll þegar hinn rétti titill var tugginn ofan í hann. Einnig var kostuleg saga sem hún sagði um það hvernig fólk upplifir skopteikningar Hugleiks Dagssonar sem hinar eiginlegu teiknimyndasögur. Þegar kúnna var bent á aðra bók eftir Hugleik sem fjallaði um ævintýri Kisa og baráttu hans við hnakkana, þá sagði hann að þetta væri ekki teiknimyndasaga, þetta væri bara "Tinnabók", þar sem í henni var sögð saga.

Erfitt var hins vegar að sjá einhverja stóra mynd. Þorgerður tæpti á styrkri stöðu ljóðanna síðasta árið, og af því spunnust nokkrar umræður, staðreyndin er að staða ljóðsins hefur á tveimur eða þremur árum breyst úr því að það væri stöðugt í barkaþræðingu og hjartahnoði yfir í að vera útskrifað af göngudeild með einfalt resept upp á sterk verkjalyf. Hins vegar var Þorgerður ekki tilbúin til að fallast á skoðanir sumra fundarmanna um að stóraukin virkni í ljóðaundirlaginu með framgirni Nýhylis og Nykurs, málþingum og ljóðþingum og uppfærslu ljóðumræðunnar á alveg nýtt plan hefði nokkuð með þetta að gera. Hún benti á að það væri alveg nýtt fólk sem hefði komið og keypt bækur á borð við Guðlausir menn eftir Ingunni Snædal, en þá bók tók hún sérstaklega útúr sem vel heppnað verk hvað viðtökur varðaði. Ég held að endurreisn ljóðsins sé hins vegar óskljanleg nema ef t.d. Nýhil er haft til hliðsjónar. Ég skrifaði í TMM árið 2002 tvær greinar þar sem ég var að reyna að átta mig á landslaginu og uppgötvaði mér til skelfingar að líkmetafóran var búin að hreyðra um sig alls staðar, það var komið drep í sárið. Síðan hefur þetta breyst. Raunar mjög mikið.

Annað sem Þorgerður tæpti á var að staða frumsaminna barnabóka væri veik og titlar færri en áður. Mér sýnist raunar af talningu í Bókatíðindum að þetta sé ekki alls kostar rétt. Tala frumsaminna barnabóka hefur verið lengi í kringum 40-50 árlega. Hins vegar er nánast sprenging í útgáfu þýddra barnabóka, en það er af efnahagsástæðum, þetta eru samprentabækur sem auðvelt og ódýrt er að framleiða.

Þorgerður fór ekkert í launkofa með að stóru bækurnar árið 2006 voru í hennar augum tvær skáldsögur: Tryggðarpantur eftir Auði Jónsdóttur og Sendiherrann eftir Braga Ólafsson. Lýsingar hennar á vinsældum Braga meðal bókakaupenda voru til dæmis nokkkuð magnaðar, sérstakelga sagan af manninum sem kom og vildi endilega kaupa eitt stykki Braga "þrátt fyrir að bókin sé víst svolítið leiðinleg", en svo sterkt var ryktið um að þetta væri verk sem allir þyrftu að hafa lesið að hann gat ekki haldið aftur af sér.

Ég vona svo að Þorgerður birti einhvers staðar sínar 10 ályktanir um bókaárið 2006 og kalli á frekari viðbrögð.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband