Bókaárið gert upp

Í gærkvöldi hlýddi ég ásamt fleiri áhugamönnum um samtímabókmenntir og bókaútgáfu á erindi Þorgerðar E. Sigurðardóttur um bókaárið 2006 í húsi Sögufélagsins við Fischersund. Félag íslenskra fræða hefur haft þann háttinn á lengi að standa fyrir þessum samkomum, sjálfur flutti ég svona tölu um bókaárið 1993 sem var nú raunar ekki beysin.

Þorgerður tók allt annan pól í hæðina en framsögumenn undanfarinna ára. Fremur en að draga upp bókmenntasögulegt samhengi verka og sjá þemu og viðfangsefni bókanna í samhengi miðaði hún mál sitt við viðtökur og sagði þar til sín reynsla hennar af bóksölu. Hún hafði lista Pennans yfir mest seldu bækur samstæðunnar árið 2006 til hliðsjónar og það var skemmtilega hressandi og nýstárlegt. Smásögur úr bóksölunni sem hún sagði voru frábærar. Til dæmis þegar einn kúnninn hélt því fram að til væri bókin Hryggðarfantur eftir Auði Jónsdóttur og varð móðgaður og fúll þegar hinn rétti titill var tugginn ofan í hann. Einnig var kostuleg saga sem hún sagði um það hvernig fólk upplifir skopteikningar Hugleiks Dagssonar sem hinar eiginlegu teiknimyndasögur. Þegar kúnna var bent á aðra bók eftir Hugleik sem fjallaði um ævintýri Kisa og baráttu hans við hnakkana, þá sagði hann að þetta væri ekki teiknimyndasaga, þetta væri bara "Tinnabók", þar sem í henni var sögð saga.

Erfitt var hins vegar að sjá einhverja stóra mynd. Þorgerður tæpti á styrkri stöðu ljóðanna síðasta árið, og af því spunnust nokkrar umræður, staðreyndin er að staða ljóðsins hefur á tveimur eða þremur árum breyst úr því að það væri stöðugt í barkaþræðingu og hjartahnoði yfir í að vera útskrifað af göngudeild með einfalt resept upp á sterk verkjalyf. Hins vegar var Þorgerður ekki tilbúin til að fallast á skoðanir sumra fundarmanna um að stóraukin virkni í ljóðaundirlaginu með framgirni Nýhylis og Nykurs, málþingum og ljóðþingum og uppfærslu ljóðumræðunnar á alveg nýtt plan hefði nokkuð með þetta að gera. Hún benti á að það væri alveg nýtt fólk sem hefði komið og keypt bækur á borð við Guðlausir menn eftir Ingunni Snædal, en þá bók tók hún sérstaklega útúr sem vel heppnað verk hvað viðtökur varðaði. Ég held að endurreisn ljóðsins sé hins vegar óskljanleg nema ef t.d. Nýhil er haft til hliðsjónar. Ég skrifaði í TMM árið 2002 tvær greinar þar sem ég var að reyna að átta mig á landslaginu og uppgötvaði mér til skelfingar að líkmetafóran var búin að hreyðra um sig alls staðar, það var komið drep í sárið. Síðan hefur þetta breyst. Raunar mjög mikið.

Annað sem Þorgerður tæpti á var að staða frumsaminna barnabóka væri veik og titlar færri en áður. Mér sýnist raunar af talningu í Bókatíðindum að þetta sé ekki alls kostar rétt. Tala frumsaminna barnabóka hefur verið lengi í kringum 40-50 árlega. Hins vegar er nánast sprenging í útgáfu þýddra barnabóka, en það er af efnahagsástæðum, þetta eru samprentabækur sem auðvelt og ódýrt er að framleiða.

Þorgerður fór ekkert í launkofa með að stóru bækurnar árið 2006 voru í hennar augum tvær skáldsögur: Tryggðarpantur eftir Auði Jónsdóttur og Sendiherrann eftir Braga Ólafsson. Lýsingar hennar á vinsældum Braga meðal bókakaupenda voru til dæmis nokkkuð magnaðar, sérstakelga sagan af manninum sem kom og vildi endilega kaupa eitt stykki Braga "þrátt fyrir að bókin sé víst svolítið leiðinleg", en svo sterkt var ryktið um að þetta væri verk sem allir þyrftu að hafa lesið að hann gat ekki haldið aftur af sér.

Ég vona svo að Þorgerður birti einhvers staðar sínar 10 ályktanir um bókaárið 2006 og kalli á frekari viðbrögð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband