23.9.2007 | 22:21
Eitt tungumál fyrir Samfylkinguna, annað fyrir almenning
Fyrir síðustu kosningar kom lítil delegasjón af geðþekkum Samfylkingarmönnum í heimsókn til okkar á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda. Þar á meðal var sá mikli málajöfur Mörður Árnason, einn gagnmenntaðasti íslenskumaður vorra daga. Erindið var að afhenda okkur fjórblöðung þar sem helstu stefnumið flokksins í menningarmálum voru tíunduð. Margt var þar sem hunang í okkar eyrum, svo sem tvöföldun framlaga í nýjan bókmenntasjóð, nokkuð sem er svo sem ekki mikið stórátak. En eitt vakti þar athygli mína: markmið flokksins að binda í stjórnarskrá að íslenska verði gerð að opinberu tungumáli lýðveldisins. Eins og sakir standa kemur það hvergi fram en Mörður var ötull við það á síðasta þingi, já meðan hann sat enn á þingi raunar, að benda á að ósvinna væri að slíkt væri ekki stjórnarskrárbundið.
En nú er öldin önnur. Samfylkingin er komin í stjórn og um leið er sem flokkurinn hafi breyst úr jafnaðarmannaflokki í einskonar víxlræktaðan ójafnaðarflokk sem keppir nú í senn að því að djöfla áfram markaðsvæðingu "með mannlegu andliti" og hins vegar að taka fyrstu skrefin í átt að útrýmingu menningarlegrar sjálfsmyndar Íslendinga. Eða hvernig á að skilja absúrd grein varaformanns flokksins í Morgunblaðinu í gær? Það virðist sem hann hafi komið af fundi fjárfursta og viljað svo óskaplega ganga í augun á þeim og sýna þeim að hann hafi samt áhrif þótt hann fengi ekki að vera ráðherra, að hann dreif sig í að hripa niður grein í Moggann um að við eigum að hverfa aftur til þess háttalags sem var á stjórnsýslunni á 18. öld og framan af þeirri 19. og nota annað tungumál en íslensku til að fjalla um samskipti þegnanna og ríkisins.
En ef skilja má þessa furðugrein rétt vill hann ganga lengra. Með tvíspora stjórnsýslusýstemi væri verið að segja við hvert smásveitafélag landsins að hafa allar upplýsingar um sig sjálft á enskum heimasíðum. Mér væri þá í sjálfsvald sett, vænti ég, hvort ég rek mál fyrir íslenskum rétti á ensku eða íslensku. Og vilji ég leggja fram athugasemdir við enn eitt borgarskipulagsslysið verði ég að gera það jafnt á ensku sem íslensku, eða þá annað hvort, eða hvað? Hvernig á þetta að fúnkera í reynd? Það er líklegast bót í máli að maður hefur ekki sóað tímanum að horfa á Boston Legal og LA Law. Nú getur maður notað alls kyns slangur úr þeim góðu þáttum við að tala við íslensk yfirvöld, og þarf í raun á því að halda.
En kannski vill Samfylgingin bara fá eigið tungumál svo hún þurfi ekki meir að tala við almenning og geti fullendis hreiðrað um sig ofan við þetta jarðbundna líf. Þar getur hún útbúið áhættumat og stundað samræðustjórnmál út í eitt á meðan varaformaðurinn bullar á ensku og íslensku til skiptis um gildi áframhaldandi útrásar og fengið ásamt viðskiptaráðherranum dimmraddaða klapp á bakið frá fjárpennunum á markaðskálfum blaðanna fyrir einstakan skilning á þörfum fjármálaheimsins. En af hverju ensku? Af hverju er varaformaðurinn svona smátækur? Af hverju ekki strax bara mandarín, sem er jú málið sem allir betur megandi menn í New York láta börnin sín læra svo þau geti alist upp við kínverska kúgunarheimsmynd framtíðarinnar? Framtíðin er þar með kyngreindum fóstureyðingum, dauðarefsingum, pyntingum, nauðungarflutningum, barnaþrælkun, mengun, ömurlegum aðbúnaði verkafólks, umhverfsslysum og útlendingahatri. Þetta er einmitt svona land sem varaformenn Samfylkingarinnar eiga að mæra um leið og þeir leggja til að almenningur á Íslandi fái endanlegan útskúfunarpassa úr eigin lífi.
En hvað varð um rauða pésann með menningarloforðum Samfylkingarinnar? Ég fann hann ofan í skúffu um daginn og fannst það góð lesning. Er ekki mál til komið að allir þeir velunnarar íslensku og jöfnuðar sem ég veit að styðja enn þennan flokk minni nú forystu sína á hann?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.