Íslenskuumræðan

Íslenskuumræðan sem Sigurjón í Bankanum hleypti af stað um daginn vindur upp á sig. Fyrstu viðbrögð voru skeptísk, til að mynda ummæli í blöðum og bloggsíðum og svo heyrði ég fautafínt viðtal við málfræðinginn Harald Bernharðsson á Rás 2 sem eiginlega rúllaði þessu upp. Það var svo sem líitið hægt að segja meira nema einhverja vanstillta vitleysu eftir þann hófstillta og yfirvegaða málflutning sem hann hafði í frammi. Nú vil ég sjá bók eftir þessan mann, úttekt á móðurmálinu sem ég myndi vilja sjá Einar Bárðarson og Corleone-feðga plögga inn á hvert heimili.

Nokkur atriði hafa vakið furðu mína í þessari umræðu. Í fyrsta lagi hin fullkomna og raunar algera þögn rithöfunda. Þeir virðast ekki telja það ómaksins vert að rísa upp atvinnutæki sínu til bjargar. Eini maðurinn sem heyrst hefur í er Þórarinn Eldjárn sem er raunar í íslenskri málnefnd, er þar varaformaður. Í þeirri miklu og stóru nefnd sitja raunar fleiri rithöfundar, s.s. þær Ingibjörg Haraldsdóttur og Brynhildur Þórarinsdóttur.

Í öðru lagi getur maður endalaust orðið bit á því fólki sem heldur því fram kinnroðalaust að móðurmál sitt sé slíkt kúgunartæki að betra sé að nota annað mál og ruglar þá kunnáttu í öðru tungumáli saman við það að vera tvítyngdur. Þótt maður kunni eitt erlent mál sæmilega vel er maður langt frá því að vera tvítyngdur. Það þekkja allir að maður mætir alltaf sviði í erlendu máli sem maður þó kann vel þar sem mann rekur í strand og er þá oftast kúgaður af eigin vanþroska og þekkingarleysi. Einn af þessum "aðilum" er séra Baldur Kristjánsson sem virðist vera í sömu andlegu bóndabeyju og margir jafnaðarmenn dagsins í dag. Þeir rugla í sífellu saman eigin stöðu sem menntaðir góðborgarar og almennum hagsmunum svo úr verður einhver furðulegur blendingur velmeinandi umburðarlyndis og hefðbundinna borgaralegra gilda, skelfilegur kokteill. Á bloggsíðu sinni setur hann á mikla ræðu um hvað það skipti litlu fyrir hugsunina að taka nú upp nýtt tungumál, það geti verið svo hressandi því tungumálið sé svo voðalegt kúgunartæki. Er það ekki rétt munað hjá mér að hann hefur undanfarin ár predikað á svahílí? Eða leystist fagnaðarerindið endanlega upp í læðing þegar sóknarbörnin ákváðu að nota frekar wolof í staðinn fyrir svahílí vegna þess að þeim fannst þau frekar tengd Vestur-Afríku en Austur? Ég legg það að minnsta kosti til að við tökum upp wolof. Ég kann að segja góðan daginn á því máli, það er nang-a-tang. Þegar maður vill segja, "hvernig hefur þú það?", segir maður nang-a-def. Einfaldara gæti það ekki verið. Mér finnst strax eins og kúgunarhlekkirnir falli af heilanum. En hvers konar hringlandi vitleysu eru almennilegir menn eiginlega að bera á borð fyrir okkur? Vill hann að venjulegt íslenskt fólk drífi sig í að taka upp annað tungumál nú þegar til að geta áreiðanlega skorið á rætur sínar, sögu og minningar? Fer það svona illa með sálina að búa suður með sjó?

En eigum við ekki nú að fá línuna frá Íslenskri málnefnd. Skv. lögum sem samþykkt voru um störf hennar í fyrra er þar skýrt kveðið á um að henni beri að álykta einu sinni á ári um stöðu íslenskunnar. Til að undirstrika þetta má hér sjá lista nefndarmanna ef einhver vill skrifa þeim bréf um málið:

 Guðrún Kvaran formaður, skipuð án tilnefningar, varamaður Svanhildur ÓskarsdóttirÞórarinn Eldjárn varaformaður, skipaður án tilnefningar, varamaður Þórunn BlöndalSigríður Sigurjónsdóttir tilnefnd af háskólaráði Háskóla Íslands, varamaður Eiríkur RögnvaldssonBrynhildur Þórarinsdóttir tilnefnd af Háskólanum á Akureyri, varamaður Sigurður KristinssonÞorlákur Karlsson tilnefndur af Háskólanum í Reykjavík, varamaður Anna BragadóttirÚlfhildur Dagsdóttir tilnefnd af Listaháskóla Íslands, varamaður Sigurjón B. SigurðssonSigurður Konráðsson tilnefndur af Kennaraháskóla Íslands, varamaður Anna S. ÞráinsdóttirHaraldur Bernharðsson tilnefndur af hugvísindadeild Háskóla Íslands, varamaður Þóra Björk HjartardóttirGunnar Stefánsson tilnefndur af Ríkisútvarpinu, varamaður Valgerður Anna JóhannsdóttirJóhann G. Jóhannsson tilnefndur af Þjóðleikhúsinu, varamaður Melkorka Tekla ÓlafsdóttirSæmundur Helgason tilnefndur af Samtökum móðurmálskennara, varamaður Svanhildur Kr. SverrisdóttirIngibjörg Haraldsdóttir tilnefnd af Rithöfundasambandi Íslands, varamaður Sigurður PálssonSteinunn Stefánsdóttir tilnefnd af Blaðamannafélagi Íslands, varamaður Sigurður G. TómassonSigrún Helgadóttir tilnefnd af orðanefndum, varamaður Sigurður Jónsson frá ArnarvatniVeturliði Óskarsson tilnefndur af Hagþenki, varamaður Katrín Jakobsdóttir 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband