Á Esju

Í gærkvöldi blasti við okkur Magga furðuleg sjón, nokkuð sem við höfum aldrei orðið vitni að áður. Við hittum mann uppi á Þverfellshorni Esju sem var að lesa bók. Hann hafði gengið áleiðis að efri vörðunum tveimur upp af horninu þangað sem fæstir nenna að fara og sat þar í makindum í góða veðrinu og las.

Það er ekki oft sem logn er þarna uppi, en það var svo sannarlega í gærkvöldi, nánast reyndar hitasvækja. Við hittum þau hjón Þórarinn Eldjárn og Unni og Unnur skýrði út fyrir okkur fyrirbærið: hafgolan berst ekki upp, hún er bara á láglendi og þá er logn til fjalla. Þegar búið var að segja manni þetta áttaði maður sig á að þetta er rétt, en það var traustvekjandi að heyra þetta frá alvöru veðurfræðingi, þetta var nánast eins og ritskýring við ferðina.

En lesandanum á Esju brá nokkuð því við komum aftan að honum, átti greinilega ekki von á því að fólk kæmi neðan af Esjunni sjálfri. Við fórum nefnilega upp Gunnlaugsskarð og gengum svo hringinn niður á Þverfellshorn og vorum rasandi yfir hve margir voru á leið upp, löng röð göngufólks fikraði sig nær. Ég hafði það sterkt á tilfinningunni að þetta fólk væri á leið að skríni eða helgidómi. Á útbúnaði margra og stuttu spjalli við þá mátti sjá að þessi ganga var nýjung í þeirra lífi en allir voru ákveðnir að komast upp, enda færið sjálfsagt aldrei betra en nú, stígarnir þurrir og auðgengir og keðjurnar sem Höskuldur í ÁTVR og FÍ komu upp fyrir tveimur eða þremur árum eru nánast bylting og hafa leitt af sér að aftur hefur troðist einn fastur stígur. Á tímabili var allt Þverfellshornið orðið að einum vaðli því fólk óð upp þar sem því sýndist og engar leiðbeiningar voru um uppgöngu.

Keðjurnar minntu mig á að þegar þær voru "vígðar", tók Halldór Ásgrímsson þátt í athöfninni. Honum var málið skylt enda þá orðinn að ástríðufullum Esjugöngumanni. Ég rakst á hann nokkrum sinnum utan í horninu en aldrei tókum við tal saman utan einu sinni vorið 2003. Þetta var krítískur tími hjá Framsókn mitt í miklum atgangi um skipan ráðuneyta og stjórnarmyndunarvafstur þar sem Össkur hrærði upp í liðinu með gylliboðum eins og við vitum nú. Ég var þá á leiðinni upp í hreinni skemmtigöngu og fór mér ekki óðslega. Gekk lögboðna stíginn upp með Mógilsánni og þar áfram upp skáann utan í Þverfellshorninu. Þar sem ég kem suður fyrir hornið situr sólin ofan á Kambshorninu og skín beint framan í mig svo ég blindaðist alveg og horfði því niður í götuna.  Allt í einu verð ég var við að maður kemur á móti mér og eins og Esjufara er siður lít ég upp til að bjóða góða kvöldið en blindast um leið og sé ekki nema útlínur göngumannsins. Hann kemur nánast eins og út úr sólarkringlunni, helst líkur grísku goði, kannski Appolón og ég stari píreygður á en lít svo niður þar sem maðurinn segir ekkert, muldra svo ofan í svörðinn "Gott kvöld". Við það nemur goðið staðar. Ég lít upp. Þar sé ég vinalegt andlit Halldórs. Hann er rjóður í vöngum og yfirbragðið óvenju létt, ég hugsa að honum sé farið líkt og mörgum, að þeir kasta af sér hamnum á fjöllum og út í náttúrunni og eru þar í raun þeir sjálfir. Halldór býður nú gott kvöld en ég sé á honum að hann vill segja meira svo ég staðnæmist. "Ætlarðu upp?" spyr Halldór og lyftir um leið annarri hendi með tónfalli og sveiflu sem ósjálfrátt minnti mig á Óla Jóh. Ég jánka því. "Alla leið upp?" Jú, það var ætlunin. "Vildurðu þá vera svo vænn að skrifa nafnið mitt í bókina, ég gleymdi því nefnilega áðan." Ég jánkaði því og ætlaði svo að spæna af stað en um leið kom upp í mér strákurinn svo ég vildi spyrja hvaða nafn ég ætti að setja í bókina. Halldór virtist hafa áttað sig á þessu smáræði því hann staðnæmdist sjálfur eftir að hafa tekið tvö skref niður á við: "Það er Halldór," sagði hann. "Halldór Ásgrímsson." Og þakkaði fyrir sig.

Upp kominn skrifaði ég nafnið mitt. Síðan skrifaði ég "Halldór Ásgrímsson". Tveimur dögum síðar fór ég aftur upp og kíkti þá í bókina. Fyrir neðan nöfnin okkar Halldórs hafði einhver skrifað: "Davíð Oddsson".

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband