Klisjan um staðkvæmdarvöruna

Fjármálaráðherra bar á góma í síðustu færslu. Hann vekur athygli á því í Morgunblaðinu 20. mars að virðisaukaskattur á fleiri vörum en matvælum hafi lækkað þann 1. mars síðastliðinn. Hann nefnir þar húshitun og fjölmiðlaáskrift og svo náttúrlega bækur, en virðisaukaskattur á bókum lækkaði úr 14% í 7% þann dag.

Félag íslenskra bókaútgefenda kynnti þessa lækkun í tengslum við árlegan bókamarkað sinn sem hófst einmitt 1. mars og bóksalar og bókaútgefendur eru sammála um að lækkunin hafi skilað sér og borið árangur. Engar kvartanir hafi borist vegna þess að menn telji vanefndir hafa verið á lækkuninni. Þvert á móti hafi útgefendur lækkað bækur sínar meira en sem nam hreinni virðisaukaskattsprósentulækkun og rúnnað niður í næstu heilu tölu fyrir neðan. Þar sem fáir ef nokkrir hafa barist jafn mikið fyrir lækkun og helst afnámi virðisaukaskatts á sínar vörur og bókaútgefendur og höfundar væri það líka fullkomin vitleysa að láta þetta happ úr hendi sleppa.

Fjármálaráðherra vakti líka athygli á því að verð á hljómdiskum hefði lækkað úr 24% í 7%. Það ber að fagna þeirri ákvörðun, sérstaklega ef hún getur orðið til stuðnings íslenskum tónlistarmönnum á innanlandsmarkaði, en sjálfsagt er engin grein íslenskrar samtímamenningar sem hefur átt jafn alþjóðlega skírskotun og tónlistin. Nýja þjóðernisstoltið, hin nýja réttlæting þjóðernisins sem skapandi og sérstakt og framandi, hefur átt sína helstu stoð í tónlistinni þar sem íslensk Björk og Rós hafa vaxið í öllum hornum og átt "að vinum gamburmosa og stein" jafnt sem "aldintré með þunga og frjóva grein". Allar aðrar íslenskar listgreinar, þar á meðal bókmenntir, njóta góðs af þessu og geta með jákvæðum hætti stýrt ímynd sinni og markaðssetningu á alþjóðavettvangi með hliðsjón af jákvæðum straumum úr tónlistargeiranum.

En réttlætingin fyrir þessari ákvörðun eins og hún birtist í pistli fjármálaráðherra sem og í athugasemdum sem fylgja lögum um afnám vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts kemur bókaútgefendum ákaflega spánskt fyrir sjónir. Í athugasemdunum við 3. gr. laganna segir orðrétt:

Í c-lið ákvæðisins er lagt til að virðisaukaskattur á geisladiska, hljómplötur og segulbönd með tónlist verði 7%. Er það gert til að jafna samkeppnisstöðu tónlistarútgefenda við bóka- og tímaritaútgefendur en bent hefur verið á að geisladiskar með tónlist séu staðkvæmdarvara við bækur og tímarit og því óeðlilegt að önnur varan beri 24,5% virðisaukaskatt en hin 7%.

Þessi orð bergmálar svo fjármálaráðherra í greininni í Morgunblaðinu.

Mér vitanlega eru engar markaðsrannsóknir til sem styðja þessa fullyrðingu. Aldrei hefur farið fram nákvæm rannsókn á því hvort tónlist sé staðkvæmdarvara fyrir bækur, eða þá aðra vöruflokka á borð við DVD myndir, sem ég held að hljóti að vera "eðlilegri" staðkvæmdarvara ef maður er á höttunum eftir diski hvort eð er. Sem og tölvuleikir eða önnur rafræn skemmtan sem öll mun áfram bera 24% virðisaukaskatt þrátt fyrir andmæli, t.d. hafa kvikmyndagerðarmenn verið ósáttir við að DVD-útgáfur íslenskra kvikmynda skuli ekki fá að fylgja geisladiskunum eftir. Þeir byggja sína röksemd á því að geisladiskar séu staðkvæmdarvara fyrir DVD-diska, þannig að ormurinn lengist stöðugt.

Í raun skiptir engu hvort bækur eru staðkvæmdarvara fyrir geisladiska og öfugt. Ég hef áður sagt og stend við það að samkeppnin þarna á milli sé óveruleg og fari aðallega fram í hausnum á talsmönnum hljómplötuútgefenda sem horfa nú á gjörbreytta neysluhætti á tónlist og eru að reyna að bregðast við því með einhverju móti. Sá sem er tilbúinn til að greiða 3000-4000 kr. fyrir bók til gjafa er ekki á höttunum eftir geisladiski. Ég þekki engan sem hugsar með sér: Hvort ætti ég fremjr að kaupa tímarit eða geisladisk í dag? Þetta er ekki spurning um hvort ég ætla að eyða 1500 kr. í léttan hádegisverð og latte í dag eða fá mér kilju að lesa. Neytendur haga sér ekki þannig.

Þetta er hins vegar óstaðfestur heilaspuni í mér. Enn liggja engar rannsóknir á hegðan þeirra sem neyta menningarvöru og á meðan er svona frasar, eins og þeir sem sömdu athugasemdir við frumvarp til laga nr. 175/2006 um afnám vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts bera á borð fyrir mann, ekkert annað en það sem það þeir eru: Heilaspuni. Ég vona að ráðherrar og aðrir mætir menn hætti að bera þessa gerviréttlætingu á borð fyrir okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband