Pamuk kominn í útlegð

Um nokkra hríð hefur því verið spáð að tyrkneski nóbelsverðlaunahafinn í bókmenntum Orhan Pamuk myndi þurfa að flýja land vegna ógnana og hótana af hálfu þjóðernissinnaðra Tyrkja. Í kjölfar morðsins á armenskættaða blaðamanninum Hrant Dink nú í janúar, nýafstaðinna réttarhalda gegn rithöfundinum Elif Shafak sem og kæru á hendur Pamuk sjálfum og raunar kæru á hendur 60 öðrum rithöfundum og blaðamönnum fyrir að misbjóða "æru Tyrklands" var ljóst að Pamuk yrði ekki lengi stætt á því að búa í sinni heittelskuðu Istanbul.

Hann er nú kominn til New York og hefur sagst dvelja þar um óákveðinn tíma. Hann tók út hálfa milljón dollara og fór. Enginn þorir að segja það opinberlega en öllum má vera ljóst að hann er farinn í útlegð, enda komust hvaða vitleysingar sem er upp með að hóta honum lífláti og barsmíðum óátalið. Í landi eins og Tyrklandi þar sem stjórnarskrárbundinn aðskilnaður er á milli trúarbragða og valdstjórnar virðist þessi ærumeiðingarklausa í lögunum vera einskonar ventill fyrir þá sem blanda saman þjóðernisstjórnmálum og trúmálum. Tyrkneska ríkið rekur gríðarharða afneitunarstefnu þar sem kerfisbundið er reynt að koma í veg fyrir að skipulögð útrýming Armena í upphafi 20. aldar og tyrkneska ríkið séu á einhvern hátt spyrt saman. Það furðulega er að þessi samtenging nær einnig til Ósmanaveldisins sáluga sem tyrknesk stjórnvöld telja sig þurfa að vaka yfir þótt horfið sé í hringiðu aldanna. Pamuk, líkt og svo margir aðrir blaðamenn og rithöfundar í Tyrklandi, hefur árætt að skrifa um þessa viðburði, en raunar eins og skáldsagnahöfundum er eiginlegt, með því að draga margskonar sjónarhorn inn í myndina. Þeir sem þekkja verk Pamuks og þær margbrotnu frásagnir sem hann býr til vita að heimskan á bak við kærur og ásakanir þjóðernissinnaðra landa hans eru undarlegar, svo vægt sé til orða tekið.

Það var ekki tilviljun að Pamuk hlaut Nóbelsverðlaunin í fyrra. Augu heimsins beinast nú að Vestur- og Mið-Asíu sem aldrei fyrr. Stóru átakalínur sögu 21. aldar eru þar. Þetta er landsvæði ótæmandi möguleika, nýrrar nýlendustefnu gamla heimsveldisins og svæði þar sem nýja heimsveldið Kína seilist til áhrifa. Þarna eru líka heimkynni spámannlegra baráttuhópa sem bíða eftir að þurrka út Babýlon vestursins og kannski er þetta landsvæði að endurheimta mikilvægi sitt í sögu mannkyns, þá stöðu sem það hafði í þúsundir ára. Þarna er líka einstök nútímaleg hámenning því verk eins og þau sem Pamuk skrifar verða ekki til nema í fjölþjóðlegu, menntuðu og lifandi samfélagi þar sem sagan er eins og iðustraumur.

Á meðan reyna Tyrkir að komast inn í Evrópu og gera sig gildandi þar á bekk. Á meðan þessum ofsóknum sem lögregla og dómskerfi taka fullan þátt í heldur áfram er sú barátta í raun vonlaus. Tyrkland er siðferðilega ekki þess umkomið að teljast fullgildur þátttakandi í bandalagi sem hefur letrað frelsi, jafnrétti, virðingu og samvinnu á sinn skjöld.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband